Lífið

Leikstjóri Billy Elliot hljóp í skarðið fyrir veðurtepptan leikara

Bjarki Ármannsson skrifar
Bergur Þór Ingólfsson leikstjóri skellti sér í búning Hilmars í kvöld.
Bergur Þór Ingólfsson leikstjóri skellti sér í búning Hilmars í kvöld. Myndir/Borgarleikhúsið
Óveðrið sem gengið hefur yfir víða um land í dag setti svip sinn á sýningu kvöldsins í Borgarleikhúsinu. Einn meðlimur leikhópsins í Billy Elliot var þá veðurtepptur austan fjalls og þurfti strax að finna til staðgengil.

Það var Hilmar Guðjónsson, sem fer með hlutverk píanóleikarans Braithwaite í sýningunni, sem komst ekki í leikhúsið í kvöld. En þar sem enginn þekkir hlutverkið betur en leikstjórinn og engin danssporin betur en danskennarinn, stukku þau Bergur Þór Ingólfsson leikstjóri og Chantelle Carey aðstoðardanshöfundur í búninga og á sviðið. Fóru þau saman með hlutverk Braithwaite í kvöld með ágætum árangri.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Bergur stekkur inn í hlutverk sem hann hefur leikstýrt en fyrir nokkrum árum slasaðist Halldór Gylfason í miðri sýningu á Galdrakarlinum í Oz. Leikstjórinn Bergur var í salnum, skellti sér baksviðs, í búninginn og sýningin hélt áfram. Frá þessu öllu er greint í fréttatilkynningu frá Borgarleikhúsinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×