Lífið

Illugi mættur aftur til leiks

Jakob Bjarnar skrifar
Illugi: „Einhver hlýtur að hafa verið að bera út óhróður um Illuga J því einn góðan veðurdag var honum hent út af Facebook án þess að hafa gert nokkuð af sér.“
Illugi: „Einhver hlýtur að hafa verið að bera út óhróður um Illuga J því einn góðan veðurdag var honum hent út af Facebook án þess að hafa gert nokkuð af sér.“ visir/valli
Facebookreikningi Illuga Jökulssonar, rithöfundar, blaðamanns og samfélagsrýnis, var óvænt lokað um helgina. Þetta kom flestum í opna skjöldu því þó Illugi sé harður í horn að taka þegar hann gagnrýnir valdhafa, einkum þó Sjálfstæðisflokkinn, er hann prúður til orðs og æðis.

Illugi er líklega einhver virkasti penninn á Facebook, hann er fyrir löngu búinn að fylla vinakvóta sinn, fimm þúsund vinir eru á skrá, og brugðust margir illa við þegar það spurðist að Facebook væri búið að loka reikningi Illuga án skýringa. Ísak Harðarson gekk í það að stofna sérstakan hóp á Facebook þar sem skorað var á þar til bæra stjórnendur á Facebook að endurskoða þessa óskiljanlegu ákvörðun.

Nú í morgun var svo reikningurinn opnaður. Engar skýringar á þessari lokun, en skilaboð sem Illugi fékk voru á þá leið að hann var beðinn velvirðingar á óþægindunum.

„Einhver hlýtur að hafa verið að bera út óhróður um Illuga J því einn góðan veðurdag var honum hent út af Facebook án þess að hafa gert nokkuð af sér.“ Svo hljóðar status Illuga eftir endurkomuna og eru margir til að fagna því að hann sé mættur til leiks á ný. Enn er sem sagt ekki vitað hvað varð til að Illuga var úthýst en margir hallast að því, sem Illugi reyndar gefur í skyn, að pólitískir andskotar hans hafi lagst á eitt og sent inn kvörtun vegna skrifa hans sem þá urðu til að gripið var til þessa gerræðis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×