„Þessi tenging mín við þetta tiltekna fyrirtæki sem starfar erlendis er frá þeim tíma þegar ég var utan þings og var þess vegna að vinna fyrir mér,“ segir Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, aðspurður um tengsl sín við fyrirtækið Orka Energy. Aðilar á vegum fyrirtækisins tóku þátt í dagskrá vinnuferðar ráðherrans til Kína í síðasta mánuði en á hagsmunaskrá Alþingis segir að Illugi hafi sinnt ráðgjafastörfum fyrir Orku Energy í Singapúr vegna verkefna í Asíu.
Fréttavefurinn Hringbraut vakti athygli á þessu fyrr í kvöld. Illugi segir að upplýsingarnar í hagsmunaskránni séu úreltar, þar sem hann hafi ekki sinnt störfum fyrir fyrirtækið frá því að hann var utan þings árið 2011, og jafnframt að ráðuneytið hafi ekki boðið fulltrúum Orku með til Kína.
„Þeir voru staddir þarna úti á þessum tíma og ástæðan fyrir því að þetta er sérstaklega tekið fram í dagskránni er sú að ég sat á einum fundi þeirra með samstarfsaðilum sínum,“ segir Illugi. „Þeir voru ekki þarna á okkar vegum og við vorum ekki að borga fyrir þá eða eitthvað þess háttar.“
Hann segist ekki hafa neina fjárhagslegra hagsmuna að gæta í tengslum við starfsemi Orku, hvorki sé hann á launaskrá né eigi hlutabréf í fyrirtækinu. Hann segist þó geta skilið hversvegna sá misskilningur komi upp þar sem upplýsingarnar á hagsmunaskránni ættu að hafa verið teknar út.
Illugi segir ferðina tilkomna vegna formlegs boðs Kínverja. Kínverskir ráðherrar sem fari með sömu málaflokka og íslenska mennta- og menningarmálaráðuneytið hafi á undanförnum árum komið hingað til lands í vinnuferðir. Aðspurður hvernig til dæmis heimsókn á jarðhitasvæði í nágrenni Peking falli undir verkahring menntamálaráðherra segir hann það heyra undir vísindasamstarf Íslendinga og Kínverja.
„Þarna hefur verið samstarf á vísindasviðinu milli landanna,“ segir hann. „Ég hafði heilmikinn áhuga á að sjá það, þar sem þarna hafa íslenskir vísindamenn verið að störfum.“
Innlent