Innlent

Bubbi orðinn stuðningsmaður Pírata

Jakob Bjarnar skrifar
Bubbi hefur amast mjög við málflutningi Pírata í tengslum við ólöglegt niðurhal á tónlist, en það mun ekki koma í veg fyrir að hann ætli að greiða þeim atkvæði í næstu kosningum.
Bubbi hefur amast mjög við málflutningi Pírata í tengslum við ólöglegt niðurhal á tónlist, en það mun ekki koma í veg fyrir að hann ætli að greiða þeim atkvæði í næstu kosningum. visir/gva
Píratar hafa verið á blússandi siglingu í skoðanakönnunum að undanförnu og hafa verið að mælast sem stærsti stjórnmálaflokkur landsins.

Og enn bætast við stuðningsyfirlýsingarnar en Bubbi Morthens tilkynnti um það í nú í morgun, á Facebooksíðu sinni, að hann ætlaði að kjósa Píratana í næstu kosningum. Þetta sætir nokkrum tíðindum því Bubbi hefur kvartað mjög undan ólöglegu niðurhali á tónlist. Bubbi telur að það fyrirbæri sé að ganga að plötusölu dauðri og hefur gengið svo langt að lýsa því yfir að honum sé til efs að hann muni gefa út plötu aftur – vonlaust sé að slíkt komi út í plús. Píratar hafa talað á þeim nótum að við þessu niðurhali sé fátt eitt að gera, og tónlistarmönnum sé nær að vinna með þeirri staðreynd fremur en að eltast við að reyna að koma í veg fyrir þetta.

Bubbi hefur amast mjög við þeim málflutningi en ætlar ekki að láta það koma í veg fyrir að vilja greiða þeim atkvæði í næstu kosningum. Það sem einkum varð til þess að hann ákvað að ganga til liðs við Píratana er greinin „Það er pírati í smurolíunni minni“ eftir Ragnar Þór Pétursson, sem birtist í Stundinni og Bubbi segir alveg frábæra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×