Körfubolti

Justin Shouse mun spila sitt áttunda tímabil í Garðabænum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Justin Shouse.
Justin Shouse. Vísir/Ernir
Körfuknattleiksdeild Stjörnunnar kynnti nýjan leikmann, Tómas Heiðar Tómasson, á blaðamannafundi í dag en þar kom líka fram að Justin Shouse ætlar að spila áfram með liðinu.

Auk þess að semja við Tómas hefur Stjarnan framlengt eða er við það að ganga frá samningum við alla þá leikmenn sem léku með félaginu á þessu tímabili, þar með talin Justin Shouse.

Stjörnuliðið missir þó tvo leikmenn. Jón Orri Kristjánsson mun fara upp á Akranes og Dagur Kár Jónsson er að leiðinni í skóla í Bandaríkjunum.

Justin Shouse spilaði fyrst með Stjörnunni tímabilið 2008 til 2009 og var því að klára sitt sjöunda tímabil í Garðabænum í vetur.

Justin Shouse var með 19,9 stig og 5,9 stoðsendingar að meðaltali í deildarkeppninni og með 18,6 stig og 5,8 stoðsendingar að meðaltali í úrslitakeppninni þar sem Stjarnan datt út fyrir Njarðvík eftir oddaleik í Njarðvík.

Justin var valinn besti leikmaður bikarúrslitaleiksins þar sem hann var með 19 stig og 10 stoðsendingar í 85-83 sigri á KR í Laugardalshöllinni. Þetta var í þriðja skiptið sem hann verður bikarmeistari með Stjörnunni (2009, 2013 og 2015).

Justin Shouse verður 34 ára í september en hann hefur spilað á Íslandi frá árinu 2005 þegar hann kom til 1. deildarliðs Drangs frá Vík í Mýrdal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×