„Það var úrslitakeppnistilfinning í þessum leik, tvö sterkustu liðin í deildinni í dag að mætast, svona á þetta að vera… Þetta er bara snilld. Ég væri til í að spila alla leiki svona, þetta er svo geggjað. Mjög ánægður með fólkið sem mætti og studdi okkur,“ sagði Sigtryggur Arnar skömmu eftir leik.
Stjörnumenn byrjuðu betur og Stólarnir lentu í vandræðum fyrstu mínúturnar, en voru fljótir að snúa hlutunum við.
„Mér finnst það einkenna okkur núna, við erum ekki að brotna þó það komi einhver áhlaup á okkur. Við erum það andlega sterkir. Þó það komi eitthvað áhlaup höldum við bara áfram, við breytum engu, það skiptir okkur ekki máli. Það er það sem við erum búnir að sýna á þessu tímabili, finnst mér, það er andlegur styrkur.“
Andlegi styrkurinn skilaði sigri fyrir Tindastól í kvöld, sem kláraði síðustu mínútur leiksins án miðherjans Adomas Drungilas. Auk þess eiga Stólarnir inni nýjan leikmann, Dimitris Agravanis, sem mun spila með liðinu það sem eftir lifir tímabils.
„Það boðar virkilega gott. Drungilas var virkilega öflugur í dag og þeir áttu erfitt með að stoppa hann. Hann gefur okkur svo mikið en þegar hann fer út af kemur maður í manns stað og við spilum bara aðeins öðruvísi. Við getum það, spilað á mismunandi vegu. Erum með ágætis dýnamík í þessu liði, mér líst bara vel á þetta,“ sagði Sigtryggur Arnar að lokum.