Innlent

Veruleg röskun á meðferðum krabbameinssjúkra

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Veruleg röskun hefur orðið á meðferðum krabbameinssjúkra undanfarna viku vegna verkfalls geislafræðinga. Fresta hefur þurft fjölda geislameðferða þar sem aðeins er hægt að geisla um helming af því sem venja er.

Um vika er síðan að lífeindafræðingar, náttúrufræðingar, geislafræðingar og ljósmæður lögðu niður störf á Landspítalanum, alls um fimm hundruð manns. Verkfallið hefur haft töluverð áhrif á starfsemi spítalans, sérstaklega verkfall geislafræðinga.

Verkföllin eru liður í kjarabaráttu Bandalags háskólamanna. Að jafnaði eru sex geislafræðingar við störf á spítalanum sem framkvæma geislameðferðir á hverjum degi. Þeir eru aðeins tveir á meðan verkfallinu stendur sem sinna brýnustu tilfellunum.

„Það er sem sagt ýmiss konar meðferð sem er þá látin bíða en það eru líklega svona fimmtíu prósent afköst miðað við áður,“ segir Gunnar Bjarni Ragnarsson, yfirlæknir krabbameinslækninga á Landspítalanum.

Þannig hefur verkfallið töluverð áhrif á geislameðferðir krabbameinssjúkra og eru áhrifin umtalsvert meiri nú en í læknaverkfallinu. Sem skýrist af því að verkfallið er samfellt og ekkert hlé gert.

„Það tefur þeirra meðferð en eins og ég segi, það verður bara að vega og meta dag frá degi hversu lengi er hægt að bíða í hverju einasta tilviki,“ segir Gunnar Bjarni.

Samningafundur BHM og ríkisins í Karphúsinu í dag reyndist árangurslaus. Næsti samningafundur verður ekki fyrr en á fimmtudaginn og á meðan ekki semst heldur verkfallið áfram. Gunnar Bjarni segir verkfallsaðgerðirnar valda kvíða hjá sjúklingum.

„Þetta er mjög erfitt fyrir sjúklingana að þurfa að bíða. Óvissan er mjög erfið en ég undirstrika það að ef það er læknisfræðilega ekki forsvaranlegt fyrir sjúklingana að þeir bíði, þá eru þeir ekki látnir bíða,“ segir Gunnar Bjarni.

Þá segir hann verkfall lífeindafræðinga, sem eru í verkfalli fyrir hádegi alla daga, einnig hafa töluverð áhrif á krabbameinssjúklinga. Til að mynda séu blóðprufur mikið notaðar til að meta hvort  sjúklingar geti farið í lyfjameðferð.

„Við erum nýbúin að klára erfiðar verkfallsaðgerðir lækna og nú byrjar þetta aftur. Þannig að við höfum miklar áhyggjur af þessum óstöðugleika sem ríkir í starfseminni. En við reynum að láta þetta ekki koma niður á öryggi sjúklinga og það er fullur skilningur á því hjá öllum aðilum að skaða ekki sjúklinginn,“ segir Gunnar Bjarni.


Tengdar fréttir

BHM heldur verkfallsboðun til streitu

BHM telur atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun hafa verið löglega. Formenn Starfsgreinasambandsins funda um lögmæti sinna aðgerða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×