24 farþegar voru um borð í hvalaskoðunarbátnum Faldi á vegum fyrirtækisins Gentle Giants á Skjálfandaflóa, þegar reykur kom upp um hálf ellefuleytið í morgun. Brugðist var skjótt við og eru farþegarnir nú komnir um borð í hvalaskoðunarbátinn Bjössa Sör. Sammæltust þeir um að halda hvalaskoðun áfram.

Varð fyrri kosturinn fyrir valinu og bættust farþegarnir 24 því við þá 23 sem fyrir voru að leggja af stað í hvalaskoðun um borð í Bjössa Sör.
Hvalaskoðunarbáturinn Knörrinn og björgunarbáturinn Jón Kjartansson eru nú á leið með Fald til Húsavíkur og áætlað er að þeir verði komnir þangað um hádegisbil. Ekki liggur fyrir hvar bilunin kom upp. Slökkviliðsmenn eru um borð í Faldi en ekki rýkur úr honum samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Húsavík. Veður er þokkalegt til sjós, smá gola og dálítill sjór en brim hefur verið síðustu daga.

Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni kemur fram að Samhæfingarstöð Almannavarna í Skógarhlíð hafi verið virkjuð í samræmi við hópslysaáætlun vegna farþegabáta á Skjálfandaflóa.
Þá voru björgunarsveitir í nágrenninu virkjaðar sem og slökkviliðin á Húsavík og Akureyri auk þess sem þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út.

Í tilkynningu frá Stefáni Guðmundssyni hjá Gentle Giants segir að um lítilsháttar reyk hafi verið að ræða sem komið hafi upp á útleið frá Húsavík. Skammt utan við höfnina. Verður hafi verið hið besta og allar aðstæður góðar.
„Eftir um 30 mínútna siglingu varð skiptstjórinn var við lítilsháttar reyk í vélarrúmi og brást við samkvæmt öryggisáætlun skips og fyrirtækis,“ segir í tilkynningunni.
„Björgunarsveitin á staðnum var komin á örskotsstundu sem og nærstaddir bátar á svæðinu. Farþegarnir 20 voru ferjaðir um borð í Bjössa Sör og héldu för sinni áfram í hvalaskoðun um Skjálfanda.“
Stefán segir að farþegum og áhöfn heilsist vel. Allir séu heilir. Hann þakkar öllum sem tóku þátt í aðgerðinni til lands og sveita.



