Bæjarar byrjuðu leikinn með miklum látum og hófu stórsókn að marki Porto strax á fyrstu mínútu.
Sú pressa bar árangur eftir 14 mínútna leik þegar Thiago Alcantara stangaði boltann í netið.
Á 22. mínútu kom annað markið. Jerome Boateng með skallamark eftir nokkurn atgang í teignum. Bayern búið að grafa sig upp úr holunni á aðeins 22 mínútum og miðað við þessa stöðu var liðið komið áfram.
Veislunni var langt frá því að vera lokið því þriðja, og flottasta, skallamarkið kom nokkrum mínútum síðar og að þessu sinni skoraði Robert Lewandowski.
Bæjarar voru langt frá því að vera hættir því Thomas Müller og Lewandowski skoruðu báðir fyrir hlé. 5-0 og verið að niðurlægja Porto.
Bæði lið lögðu nánast niður vopnin í seinni hálfleik en Jackson Martinez náði inn einu sárabótarmarki fyrir Porto um miðjan síðari hálfleik.
Möguleikar þeirra fuku svo endanlega út um gluggann er Marcano var vikið af velli nokkrum mínútum fyrir leikslok. Xabi Alonso lauk svo veislunni með frábæru marki beint úr aukaspyrnu.
Fyrstu tvö mörk leiksins má sjá í spilaranum að ofan. Hin mörkin má sjá hér að neðan.