Innlent

Ráðuneytið lét LEX skoða grundvöll málshöfðunar á hendur blaðamönnum

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði af sér sem innanríkisráðherra eftir að aðstoðarmaður hennar, Gísli Freyr Valdórsson, viðurkenndi lekann.
Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði af sér sem innanríkisráðherra eftir að aðstoðarmaður hennar, Gísli Freyr Valdórsson, viðurkenndi lekann. VÍSIR/STEFÁN
Innanríkisráðuneytið fékk lögmannsstofuna LEX til að kanna grundvöll málshöfðunar á hendur blaðamönnum sem fjölluðu um lekamálið. Þetta kemur fram í svari Ólafar Nordal, núverandi innanríkisráðherra, við fyrirspurn Jóns Þórs Ólafssonar, þingmanns Pírata.

Í kjölfarið af þeirri ráðgjöf sem LEX veitti tók Þórey Vilhjálmsdóttir, annar aðstoðarmanna Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þáverandi innanríkisráðherra, ákvörðun um að höfða meiðyrðamál gegn tveimur blaðamönnum DV. Hún bar sjálf kostnaðinn af því máli.

Þórey stefndi þeim Jóhanni Páli Jóhannssyni og Jóni Bjarka Magnússyni, sem þá voru blaðamenn DV, fyrir ærumeiðandi ummæli og grófar aðdróttanir í umfjöllun um málið. Þórey fór fram á að þeir yrðu dæmdir til fangelsisvistar auk þess að greiða henni bætur. Málið endaði með sátt á milli aðila.

LEX ráðlagði ráðuneytinu einnig um réttarstöðu sakborninga og vitna á rannsóknarstigi málsins, meðal annars um skyldu til að mæta til skýrslutöku, rétt til að hafa lögmann viðstaddan, aðgang að gögnum og skyldu til að svara spurningum.

Heildarkostnaður við ráðgjöf LEX, sem var bæði skrifleg og munnleg, nam 859.825 krónum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×