Lífið

Gísli Marteinn hetjan í nýjum tölvuleik

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Friðrik Steinn hjólar hjálmlaus líkt og Gísli Marteinn.
Friðrik Steinn hjólar hjálmlaus líkt og Gísli Marteinn.
Nýr leikur hefur vakið athygli í morgun en hann gengur alfarið út á það að setja mismunandi gerðir af hjálmum á fyrrum borgarfulltrúann og sjónvarpsstjörnuna Gísla Martein Baldursson.

Umræða um notkun hjálma fór af stað í vikunni eftir að MBL sló því upp í fyrirsögn að borgarfulltrúi Samfylkingarinnar Hjálmar Sveinsson hefði verið hjálmlaus í hjólað í skólann.

Gísli Marteinn steig þá fram í viðtali við Pressuna þar sem hann sagði meðal annars að það fælist mun minni hætta í því að hjóla hjálmlaus heldur en að keyra hjálmlaus. Í viðtalinu kom einnig fram að ökumenn hafi hrópað að honum ókvæðisorð þar sem hann hjólar um götur borgarinnar hjálmlaus.

Friðrik Steinn Friðriksson, hönnuður, bjó til leikinn en hann fór í loftið í morgun.

„Í staðinn fyrir að kalla á Gísla úti á götu getur það farið í leikinn og sett hjálm á hann í tölvunni,“ útskýrir hann. Hann segir að það megi kalla leikinn ádeilu á það að fullorðið fólk reyni að þvinga annað fullorðið fólk til að vera með hjálma.

„Sjálfur hjóla ég hjálmlaus og mér finnst fólk geta gert það sem það vill.“Friðrik er með MFA gráðu í upplifunarhönnun frá Konstfack í Stokkhólmi og því má segja að námið hafi nýst vel við gerð leikjarins. Sú upplifun að fá að tylla hjálmi á höfuð Gísla Marteins gæti friðað margan manninn telur Friðrik.

„Fólk getur bara farið í dress up leik og sett hjálm á Gísla.“

Leikinn má spila hér á síðunni Friðrik Steinn Friðriksson






Fleiri fréttir

Sjá meira


×