Bíó og sjónvarp

Frumsýnt á Vísi: Sýnishorn úr myndinni Hrútar

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Fyrsta sýnishornið úr kvikmyndinni Hrútar eftir Grím Hákonarson er frumsýnt hér á Vísi. Myndin var í aprílmánuði valin til sýningar í Un Certain Regard flokknum á Cannes kvikmyndahátíðinni. Myndin sjálf verður frumsýnd á hátíðinni sjálfri sem hefst eftir slétta viku.

„Þetta er stærsta kvikmyndahátíð í heimi. Það eru mörg þúsund myndir sem sækjast eftir því að komast á hana og að við séum valin inn í keppnina er gríðarlegur heiður fyrir okkur sem stöndum að myndinni og heiður fyrir íslenska kvikmyndagerð að eiga fulltrúa á þessari stóru hátíð,“ sagði Grímur Hákonarson, leikstjóri, í viðtali við Vísi eftir að tilkynnt hafði verið um að myndin yrði sýnd á Cannes.

Hrútar fjallar um tvo sauðfjárbændur á sjötugsaldri, bræðurna Gumma og Kidda, sem búa hlið við hlið í afskekktum dal á Norðurlandi. Fjárstofn þeirra bræðra þykir einn sá besti á landinu og eru þeir margverðlaunaðir fyrir hrútana sína. Þrátt fyrir að deila sama landi og lífsviðurværi þá hafa bræðurnir ekki talast við í fjóra áratugi. Þegar riðuveiki kemur upp í dalnum grípur um sig mikil örvænting á meðal bændanna þar.

Grímur Hákonarson leikstýrir og skrifar handritið að Hrútum. Aðalframleiðandi myndarinnar er Grímar Jónsson fyrir Netop Films og meðframleiðendur eru hin dönsku Ditte Milsted og Jacob Jarek fyrir Profile Pictures. Þá er Þórir Snær Sigurjónsson einn af framleiðendum myndarinnar. Framleiðslustjórn er í höndum Evu Sigurðardóttur.

Með aðalhlutverk fara Sigurður Sigurjónsson og Theodór Júlíusson. Stjórn kvikmyndatöku er í höndum Norðmannsins Sturla Brandth Grøvlen og Kristján Loðmfjörð sér um klippingu myndarinnar. Tónlist myndarinnar er samin af Atla Örvarssyni og hljóðhönnun er í höndum Huldars Freys Arnarssonar.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.