Enski boltinn

Neville: Ef Chelsea fær Bale eru hin liðin í vandræðum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gareth Bale er talinn snúa aftur til Englands í sumar.
Gareth Bale er talinn snúa aftur til Englands í sumar. vísir/getty
Gary Neville, sparkspekingur Sky Sports, telur að Manchester United eða Manchester City verði að hafa betur gegn Chelsea í baráttunni um Gareth Bale í sumar, annars horfa upp á Englandsmeistarabikarinn standa í skápnum á Stamford Bridge næstu árin.

Bale hefur átt erfitt uppdráttar á annarri leiktíð sinni á Spáni og eru háværir orðrómar í gangi þess efnis að Walesverjinn snúi aftur í ensku úrvalsdeildina í sumar. Chelsea er talið líklegasti lendingarstaðurinn.

Manchester-liðin og Chelsea eru talin þau einu sem geta í raun barist um Bale miðað við verðmiðann sem Real setur væntanlega á hann, en þegar spænski risinn keypti hann frá Tottenham varð hann að dýrasta leikmanni sögunnar.

„Ef Chelsea vinnur baráttuna og selur á móti kannski leikmann eins og Oscar eða Ramires á 50-60 milljónir punda þannig kostnaðurinn við kaupin á Bale verða um 25 milljónir tel ég að restin af liðunum verði í vandræðum næstu árin,“ sagði Neville í Monday Night Football á Sky Sports í gærkvöldi.

José Mourinho vill fara að nota eitthvað af ungu strákunum hjá Chelsea.vísir/getty
Chelsea hefur einnig byggt upp unglingaakademíu sína markvisst undanfarin ár og var Roman Abramovic, eigandi félagsins, mættur á U21 árs leik Chelsea gegn Fulham í gær.

Mourinho hefur áður talað um að hann vilji fara nota stráka sem koma í gegnum unglingastarfið hjá Chelsea, en Neville segir það vera það besta á Englandi.

„Chelsea hefur unnið ungmennabikarinn fjórum sinnum á síðustu sex árum. Það sem José Mourinho vill núna eru gæði í Chelsea-liðinu til lengri tíma með því að leyfa þessum ungu strákum að spila,“ sagði Neville.

„Ef Chelsea fær Bale og nær að spila á eitthvað af þessum bestu ungu leikmönnum landsins verður restin af deildinni í vandræðum næstu þrjú til fjögur árin. Hin liðin verða að gera eitthvað í þessu,“ sagði Gary Neville.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×