Enski boltinn

Kári og félagar áfrýja ekki stigatapinu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kári Árnason verður áfram í B-deildinni skipti hann ekki um félag í sumar.
Kári Árnason verður áfram í B-deildinni skipti hann ekki um félag í sumar. vísir/getty
Rotherham United, lið landsliðsmiðvarðarins Kára Árnasonar í ensku B-deildinni í fótbolta, ætlar ekki að áfrýja dómi enska knattspyrnusambandsins sem tók þrjú stig af liðinu í síðasta mánuði.

Rotherham spilaði leikmanninum Farrend Rawson í 1-0 sigri á Brighton 5. apríl, degi eftir að lánssamningur hans rann út. Rawsons var ólöglegur í leiknum og þrjú stig því dregin af Rotherham.

Þetta kom liðinu í mikil vandræði, en nýliðarnir voru í harðri fallbaráttu og stigatapið hjálpaði eðlilega ekki.

Kári og félagar björguðu sér þó frá falli þrátt fyrir stigatapið með sigri á Reading, 2-1, á heimavelli síðastliðinn þriðjudag og verður liðið áfram í B-deildinni.

„Þar sem við tryggðum okkur áframhaldandi veru í Championship-deildinni hefur stjórnin ákveðið að áfrýja ekki dómnum. Okkur finnst engu að síður harður dómur að taka þrjú stig af liði sem spilar ólöglegum leikmanni vegna mannlegra mistaka. Það var ekki eitthvað sem við ætluðum okkur að gera,“ segir í yfirlýsingu Rotherham.

Uppgangur Rotherham hefur verið mikill undanfarin ár, en Kári gekk í raðir liðsins þegar það var í D-deildinni fyrir þremur árum.

Rotherham fór upp um tvær deildir á tveimur árum og hélt sæti sínu í B-deildinni í ár sem nýliði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×