Innlent

Samferðarmenn minnast Halldórs Ásgrímssonar

Hrund Þórsdóttir skrifar
Eins og sagt hefur verið frá á Vísi í dag lést Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, á Landspítalanum í gærkvöldi. Halldór var formaður og varaformaður Framsóknarflokksins í rúman aldarfjórðung og sat í nítján ár á ráðherrastóli, eða næstlengst allra í stjórnmálasögu landsins.

„Hann var mjög heilsteyptur, fastur fyrir og ákveðinn. Þú gast treyst hverju orði sem hann sagði,“ segir Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, um Halldór í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. „Það gat verið flókið og erfitt að fá hann til að samþykkja hluti sem hann var tregur til, ég hugsa að því sé raunar eins farið með mig, en ef hann hafði samþykkt það gastu vitað að það myndi halda. Það þurfti ekki nema handtakið, þá ríghélt það til áraraða og það er eiginleiki í stjórnmálum sem maður metur mest, þegar maður er í þeim slag.“

Aðrir samferðamenn Halldórs bera honum svipaða sögu og á Stöð 2 var einnig rætt við Svavar Gestsson og Jón Kristjánsson, sem báðir störfuðu lengi með Halldóri.

„Hann var traustur samstarfsmaður og mikill vinur vina sinna,“ segir Jón.

„Þess utan var hann á gleðiríkum dögum mikill gleðimaður og skemmtilegur sögumaður,“ segir Davíð.

Sjá má fréttina alla í meðfylgjandi myndskeiði.






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×