Barcelona er í frábærri stöðu eftir 3-0 heimasigur á Bayern München í fyrri leiknum en þar var það mögnuð frammistaða Lionel Messi sem stóð upp úr.
Staðan var 0-0 á 77. mínútu þegar Lionel Messi skoraði tvö frábær mörk með þriggja mínútna millibili og hann lagði síðan upp þriðja markið fyrir Neymar í uppbótartíma leiksins.
Fyrra markið skoraði Messi með hnitmiðuðu langskoti en það seinna eftir að hafa skilið Jerome Boateng, varnarmann Bayern, eftir á bossanum í teignum áður en hann lyfti boltanum yfir einn besta markvörð heims, Manuel Neuer.
Bayern München þarf því að vinna upp þriggja marka forskot í kvöld og það dugir ekki að vinna 4-1 eða 5-2.
Hér fyrir neðan er myndband frá þessum snilldartökum Lionel Messi í síðustu viku en með þessum mörkum varð Messi aftur markahæsti leikmaður Meistaradeildarinnar frá upphafi.
Leikur Bayern München og Barcelona hefst klukkan 18.45 í kvöld og verður sýndir beint á Stöð 2 Sport og Stöð 2 Sport HD.