Fótbolti

Forsetakjör FIFA fer fram

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Walter De Gregorio, fjölmiðlafulltrúi FIFA, á blaðamannafundinum í morgun.
Walter De Gregorio, fjölmiðlafulltrúi FIFA, á blaðamannafundinum í morgun. vísir/afp
Walter De Gregorio, fjölmiðlafulltrúi FIFA, segir líklegt að kosningarnar til forseta sambandsins fari fram á föstudaginn þrátt fyrir aðgerðir svissnesku lögreglunnar í nótt, þar sem sex háttsettir stjórnarmenn FIFA voru handteknir í Zürich.

Sjá einnig: Sex háttsettir starfsmenn FIFA handteknir.

Á blaðamannafundi sem FIFA boðaði til í morgun, þar sem De Gregorio sat fyrir svörum, sagði hann að forseti sambandsins, hinn umdeildi Sepp Blatter, sé rólegur þrátt fyrir atburði næturinnar.

Ekki dansandi af gleði

„Við höfum öll orðið fyrir skaða en forsetinn er ekki flæktur í málið, hvernig er þá hægt að færa rök fyrir því að hann eigi að stíga til hliðar?

„Hann er forsetinn og ef hann er endurkjörinn verður hann forseti næstu fjögur árin.

„Hann er ekki dansandi af gleði á skrifstofunni sinni. En hann er mjög rólegur og samvinnufús,“ sagði De Gregorio. Hann svaraði því jafnframt játandi að HM í fótbolta færi fram í Rússlandi 2018 og í Katar fjórum árum seinna en úthlutun heimsmeistaramótsins til þessara landa hefur verið mjög umdeild.

De Gregorio sagði að þótt málið sé vissulega ekki gott fyrir ímynd FIFA fagni sambandið rannsókninni og það vinni náið með lögreglunni að henni. Hann sagði að FIFA hefði upphaflega átt frumkvæði að rannsókninni í nóvember á síðasta ári.

Tímasetningin hentug

Aðspurður um tímasetninguna á handtökunum sagði De Gregorio að hún hafi verið hentug í ljósi þess að allir stjórnarmenn FIFA voru staddir á ársþinginu og því væri auðveldara að ræða við þá en ef þeir væru staddir hver í sínu landinu.

Hann sagði jafnframt að hvorki hann né aðrir háttsettir einstaklingar innan FIFA hafi haft hugmynd um að handtökurnar myndu eiga sér stað í nótt.

Sepp Blatter var ekki meðal þeirra handteknu í nótt.vísir/getty

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×