Fótbolti

Verkfallinu frestað og Tékkaleikurinn verður í beinni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Strákarnir okkar verða í beinni.
Strákarnir okkar verða í beinni. vísir/anton
Verkfalli félagsmanna Rafiðnarsambands Íslands og fleiri iðnaðarmanna sem átti að hefjast á miðnætti annað kvöld hefur verið frestað.

Þetta eru góðar fréttir fyrir íþróttaáhugamenn, því eins og Vísir greindi frá í dag hefðu þrír landsleikir í handbolta og landsleikur Íslands og Tékklands í undankeppni EM 2016 í fótbolta ekki verið sýndir hefði til verkfallsins komið.

Tæknimenn RÚV eru flestir hverjir meðlimir í RSÍ og var Rafiðnarsambandið meira að segja búið að hafnað undanþágubeiðni RÚV um sýningar á íþrótta- og menningarviðburðum í þá sex daga sem verkfallið átti að standa yfir.

Leikirnir fjórir verða því sýndir, en það eru leikir karlalandsliðsins í handbolta gegn Ísrael á miðvikudagskvöldið og gegn Svartfjallalandi á sunnudag, leikur kvennalandsliðsins í handbolta gegn Svartfjallalandi á sunnudaginn og svo Ísland-Tékkland á föstudagskvöldið.

"Það er mikill léttir að verkfallinu hafi verið frestað þannig við getum komið þessum mikilvægu landsleikjum á skjám landsmanna. Nú hefst undirbúningur fyrir þessi verkefni," sagði Einar Örn Jónsson, íþróttastjóri RÚV, við Vísi nú undir kvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×