Fótbolti

Tekjur af FIFA-kvikmyndinni taldar í tugþúsundum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tim Roth í hlutverki Sepp Blatter.
Tim Roth í hlutverki Sepp Blatter.
Ný kvikmynd sem FIFA, Alþjóðaknattspyrnusambandið, lét framleiða hlaut vægast sagt slæmar viðtökur í bandarískum kvikmyndahúsum.

Myndin var sýnd í tíu kvikmyndahúsum í Bandaríkjunum en tekjur af henni námu alls 607 Bandaríkjadölum - rétt rúmar 80 þúsund krónur.

Kvikmyndahús í Phoenix greindi frá því að það seldi einn miða á myndina alla helgina. Miðinn kostaði tæpar 1200 krónur.

Umrædd kvikmynd, sem heitir United Passions, kostaði rétt tæpa fjóra milljarða í framleiðslu. Hún skartar frábærum leikurum á borð við Tim Roth, Sam Neill og Gerard Depardeiu.

Þeir leika þrjá forseta FIFA - Jules Rimet, Joao Havelange og Sepp Blatter - sem myndin fjallar um. Þannig er fjallað um sögu FIFA í stórum dráttum.

Gagnrýnendur hafa tætt myndina í sig og hún sögð bera vott um þá firringu og sjálfsdýrkun sem hefur viðgengist innan samtakanna undanfarin ár og áratugi.

Tímasetning frumsýningarinnar hefur vakið furðu en nýlega tilkynnti Sepp Blatter, forseti FIFA, að hann ætlaði að segja af sér embættinu - aðeins fjórum dögum eftir að hann var endurkjörinn á ársþingi sambandsins.

United Passions fær 2,5 í einkunn hjá imdb.com og 0% hjá Rotten Tomatoes.

Í sömu viku og þingið fór fram voru sjö hátt settir embættismenn FIFA handteknir vegna rannsóknar bandarískra yfirvalda á meiriháttar spillingu sem viðgengist hefur innan samtakanna svo árum skiptir.


Tengdar fréttir

Blatter hættir sem forseti FIFA

Sepp Blatter sagði af sér sem forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, skyndilega í dag. Hann gegnir starfinu þar til nýr forseti verður kjörinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×