Sport

Gull Guðmundar í spjótkasti: Vil kasta lengra

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur Sverrisson kastar í dag.
Guðmundur Sverrisson kastar í dag. Vísir/Andri Marinó
Guðmundur Sverrisson vann í dag gull í spjótkasti karla á Smáþjóðaleikunum í Reykjavík með kasti upp á 74,38 m.

„Ég er mjög sáttur við gullið. Þetta er nákvæmlega sama vegalengd og ég kastaði fyrir tveimur árum þannig að það er frekar fyndið,“ sagði Guðmundur.

„Keppnin var góð. Örn Davíðsson var að koma aftur eftir tveggja ára fjarveru vegna meiðsla og gaman að sjá hann aftur í keppni.“

„Hvað sjálfan mig varðar þá var ég ekki að gera þetta nógu vel og ég þarf að vinna í mínum tækniatriðum til að kasta lengra. Ég vil ná lágmarkinu á HM sem er 82 m. Næstu vikur munu fara í að fínpússa tæknina og garga spjótinu yfir lágmarkið.“

Guðmundur á best 80,66 m og er einn fárra íslenskra spjótkastara sem hefur farið yfir 80 m. Hann vonast til að komast í lið Íslands sem keppir á Evrópumóti landsliða í Búlgaríu eftir tvær vikur.

„Það yrði þá næsta mót hjá mér. Spjótið er fínhreyfingagrein þar sem sentímetrar og millisekúndur skipta máli og smá hreyfingar til og frá geta skilað manni mörgum metrum í kasti. Ég þarf því að æfa vel.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×