Erlent

Segjast geta læknað MERS, ebólu og alnæmi

Samúel Karl Ólason skrifar
Kim Jong-un þarf ekki að óttast ýmsa sjúkdóma.
Kim Jong-un þarf ekki að óttast ýmsa sjúkdóma. Vísir/EPA
Yfirvöld í Norður-Kóreu segja að vísindamenn þar í landi hafi þróað lyf sem nota megi til að lækna meðal annars alnæmi og ebólu. Þannig hafi þeim tekist eitthvað sem helstu vísindamenn heimsins hafa ekki getað um árabil.

Opinber fréttamiðill Norður-Kóreu, KCNA, segir vísindamenn hafa þróað lyfið Kumdang 2, úr ginsengi. Á heimasíðunni Kumdang2.com segir að ginsengið sé ræktað með áburði blönduðum sjaldgæfum frumefnum og að gífurlega smáum skömmtum af gulli og platínu.

KCNA segir að með lyfinu, sem sagt er að styrki ónæmiskerfið, sé auðveldlega hægt að lækna sjúkdóma eins og fuglaflensu, MERS, ebólu og alnæmi. Engin sönnun var þó lögð fram, samkvæmt Guardian og líklegt er að fáir muni taka þessari yfirlýsingu með nokkru öðru en efasemdum.

Í fyrra lokuðu yfirvöld Norður-Kóreu landamærum ríkisins fyrir ferðamönnum í sex mánuði. Það var gert af ótta við ebólu, þrátt fyrir að ekki eitt einasta smit hafi komið upp í nágrannaríkjum landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×