Enski boltinn

Lineker segir mark Wilshere eitt það besta í sögunni | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jack Wilshere fagnar hér seinna marki sínu.
Jack Wilshere fagnar hér seinna marki sínu. Vísir/Getty
Gary Lineker, fyrrum fyrirliði enska landsliðsins og núverandi knattspyrnuspekingur, hrósar Jack Wilshere mikið fyrir frammistöðu sína á móti slóvenska landsliðinu í undankeppni EM í gær.

Jack Wilshere skoraði þá tvö frábær mörk í 3-2 sigri Englendinga á Slóvenum í Ljubljana og það seinna var stórglæsilegt skot af um 25 metra færi.

„Jack Wilshere skoraði tvö mögnuð mörk. Ég er líka viss um að hann setti boltann á sama stað í markinu í bæði skiptin," sagði Gary Lineker í útvarpsviðtali á BBC Radio 5 live.

„Við skulum hafa þetta svona. Ef við værum að taka saman tíu flottustu mörk enska landsliðsins fá upphafi þá ætti þetta seinna mark hans heima þar," sagði Lineker sem sjálfur skoraði 48 mörk fyrir enska landsliðið á sínum ferli.

Jack Wilshere hafði ekki skorað fyrir enska landsliðið í fyrstu 27 leikjum sínum en hjálpaði þarna enska landsliðinu að vera með fullt hús í undankeppninni.

„Ég vil sjá hann fara framar á völlinn því hann fer auðveldlega framhjá mönnum. Vandamálið hjá Roy Hodgson þjálfara er kannski það að við Englendingar erum ekki að búa til afturliggjandi miðjumenn," sagði Lineker.

Jack Wilshere átti ekki eftirminnilegt tímabil fyrir Arsenal en hann er heldur betur að enda leiktíðina á jákvæðum nótum. Það er hægt að sjá þessi frábæru mörk hans í myndbandinu hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×