Erlent

Mikill viðbúnaður vegna MERS

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
vísir/epa
Að minnsta kosti þrettán eru látnir og 120 sýktir af MERS-veirunni svokölluðu í Suður-Kóreu. Innan við mánuður er síðan veiran greindist fyrst í landinu og reyna yfirvöld nú allt hvað þau geta til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu.

Tæplega þrjú þúsund skólum og leikskólum var lokað í dag auk tveggja sjúkrahúsa. Tugir heilbrigðisstarfsmanna og sjúklinga á sjúkrahúsunum tveimur eru þar í einangrun en til stendur að opna spítalana að nýju á þriðjudag. Þá hafa hátt í fjögur þúsund verið færðir í sóttkví vegna gruns um smit og hefur fólk verið varað við ferðalögum til landsins.

Veiran greindist fyrst í Suður-Kóreu þann 20.maí síðastliðinn. Hinn sýkti var þá nýkominn frá Mið-Austurlöndum þar sem veirunnar varð fyrst vart. MERS-veiran getur valdið bráðri lungnabólgu með hita, öndunarerfiðleikum og jafnvel nýrnabilum. Læknar segja veiruna ekki bráðsmitandi. Þvert á móti eigi hún erfitt með að berast milli manna nema með nánum samskiptum. Engin lækning er til við veirunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×