Fótbolti

Goðsögnin sem er hægri hönd Vrba

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pavel Vrba hefur gert flotta hluti með tékkneska landsliðið.
Pavel Vrba hefur gert flotta hluti með tékkneska landsliðið. vísir/getty
Karel Häring, tékkneskur blaðamaður sem er staddur hér á landi vegna landsleiks Íslands og Tékklands í undankeppni EM, segir það hafa verið klókt hjá Pavel Vrba, þjálfara Tékklands, að gera Karel Brückner að sérlegum ráðgjafa sínum.

Sjá einnig: Átrúnaðargoð fótboltahipstersins.

Hinn 75 ára gamli Brückner er goðsögn í Tékklandi en hann stýrði landsliðinu á árunum 2001-2008 og kom því m.a. í undanúrslit á EM 2004. Tékkar voru með eitt besta lið Evrópu á þessum tíma með Pavel Nedved í broddi fylkingar.

Brückner var síðast við stjórnvölinn hjá austurríska landsliðinu en hætti þar 2009 og hefur ekki þjálfað síðan. Hann er hins vegar snúinn aftur í tékkneska landsliðið, í öðru hlutverki en áður, sem eins konar ráðgjafi Vrba, eða consigliere eins og það kallast á ítölsku.

„Þetta var mjög klók ákvörðun hjá Vrba,“ sagði Häring í samtali við Vísi í gær um ráðningu Brückners. Hann sagði einnig að þeir Vrba hefðu þurft tíma til að komast á sömu bylgjulengd enda báðir stórir persónuleikar.

„Vrba viðurkenndi fyrir mér í mars að þeir hefðu talað mikið saman fyrsta mánuðinn í starfi. Brückner er stórt nafn í Tékklandi og er ekki hrifinn af því þegar einhver segir honum fyrir verkum.

„Hann er viljasterkur eins og Vrba og þeir þurftu tíma til að stilla saman strengi sína. En núna er sambandið gott og leikmennirnir eru ánægðir því Vrba er goðsögn,“ bætti Häring við.

Leikur Íslands og Tékklands hefst klukkan 18:45. Hægt verður að fylgjast með honum í beinni textalýsingu á Vísi.

Karel Brückner stýrði tékkneska landsliðinu á árunum 2001-08.vísir/getty

Tengdar fréttir

Betur tilbúnir nú en síðast

Strákarnir okkar geta tekið risastórt skref í átt að Evrópumótinu í Frakklandi 2016 með sigri á Tékkum í Laugardalnum í kvöld.

Skoda verður ekki startað

Tékkar urðu fyrir áfalli um síðustu helgi þegar aðalframherji liðsins, David Lafata, meiddist á æfingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×