Lífið

Eurovision-Reynir rændur á Spáni: Þjófarnir stóðu við rúmgaflinn er hann vaknaði

Stefán Árni Pálsson skrifar
Reynir var staddur í Vín á lokakeppninni.
Reynir var staddur í Vín á lokakeppninni. vísir
„Paradísinni var spillt í nótt þegar ég vaknaði við tvo ókunnuga menn við rúmgaflinn hjá mér. Og ekki voru þeir í skemmtilegum erindagjörðum heldur náðu þeir að taka vinnutölvuna og buxur með veskinu mínu, áður en þeir hentust út um baðherbergisgluggann sem búið var að fjarlægja rúðurnar úr,“ segir Reynir Þór Eggertsson, kennari og sérstakur sérfræðingur RÚV um Eurovision-keppnina á Facebook.

Hann er staddur á Costa Blanca í fríi á Spáni. „Buxurnar og veskið fundust svo fyrir utan, peningar horfnir en öll kort á sínum stað. Ekki höfðu þeir komist lengra en í mitt herbergi áður en ég vaknaði svo að stelpurnar sluppu við þá, en vöknuðu auðvitað við köllin í mér.“

Reynir segirað lögreglan hafi verið fljót á staðinn og sinnt þeim vel.

„Lögreglufulltrúinn talaði auðvitað enga ensku en kallaði til önugan mann af næstu skrifstofu. Það hýrnaði þó heldur betur yfir mér og honum þegar Rannveig [vinkona Reynis] benti mér á eurovision-armband sem hann var með. Hann var sem sé í Vínarborg um daginn, og bað fyrir sérstakar kveðjur til Selma Björns. Í stuttu máli, þetta var ömurleg lífsreynsla, en allt í lagi með okkur. Veit samt ekki hvernig gengur að sofna í kvöld,“ skrifaði Reynir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×