Erlent

Tugir látnir eftir árás á hótel í Túnis

Atli Ísleifsson skrifar
Viðbúnaður hefur verið mikill í Túnis eftir að uppreisnarmenn bönuðu 22, aðallega erlendum ferðamönnum, í árás á safni í höfuðborg Túnis í mars síðastliðinn.
Viðbúnaður hefur verið mikill í Túnis eftir að uppreisnarmenn bönuðu 22, aðallega erlendum ferðamönnum, í árás á safni í höfuðborg Túnis í mars síðastliðinn. Vísir/AFP
Að minnsta kosti 27 eru látnir og fjölmargir eru særðir eftir að hópur manna réðst á ferðamenn á tveimur hótelum í túníska strandbænum Sousse í morgun. Óttast er að fleiri séu látnir.

  • Annar árasarmannanna var drepinn á vettvangi en hinn hefur verið handsamaður og er nú í haldi lögreglu í Túnis.
  • Viðbúnaður hefur verið mikill í Túnis eftir að uppreisnarmenn bönuðu 22 í árás í Túnisborg í mars síðastliðinn.
  • Sjónarvottar segja að árásarmennirnir hafi hafið skothríð af bátum. Hótelin sem um ræðir eru Hotel Bellevue og Royal Kenz Hotel.




15:29: Með riffil í sólhlíf

Fjölmiðlarhafa greint frá því að annar árásarmannanna hafi mætt á ströndina með Kalishnikov-riffil faldan í sólhlíf. Hafi hann svo hafið skothríð innan um strandgesti.

15:10: 28 látnir, 36 særðir

AP hefur eftir túníska ríkissjónvarpinu að 28 hafi látist og 36 særst í árásinni í Sousse. Að sögn talsmanns heilbrigðisráðuneytisins þá eru Belgar, Bretar og Þjóðverjar á meðal hinna látnu.

14:14: Túnískur námsmaður

Talsmaður lögreglu segir að annar árásarmannanna sé túnískur námsmaður sem hafi ekki áður komið við sögu lögreglu.

14:12: Seinni árásarmaðurinn handtekinn

Túnískir fjölmiðlar hafa greint frá því að seinni árásarmaðurinn hafi nú verið handtekinn. Var hann handtekinn eftir að hafa reynt að komast inn á hraðbrautina út úr bænum Sousse.

13:40: Sitja um hinn árásarmanninn

Talsmaður túníska innanríkisráðherrans Mohammed Ali Aroui segir að lögregla sitji nú um seinni árásarmanninn og hafi verið skipst á skotum.

13:38: Réðust inn á hótelin bakdyramegin

Talsmaður túniskra lögregluyfirvalda segir að árásarmennirnir hafi ráðist bakdyramegin inn á hótelin.

13:12: Ekki kunnugt um Íslendinga í Túnis

Urður Gunnarsdóttir, fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytsins, segir að starfsmönnum ráðuneytisins sé ekki kunnugt um neina Íslendinga í Túnis. Enginn hafi haft samband það sem af er, en bendir hún á að enn sé skammt liðið frá árásinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×