Innlent

„Ég átti að komast upp til að hjálpa þeim“

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá höfninni í Bíldudal.
Frá höfninni í Bíldudal. Vísir/PJetur
„Stundum er þetta þannig og ekki hægt að útskýra hvað gerðist. Ég veit ekki hvernig ég komst á kjöl, vissi ekki fyrr en ég stóð þar. Ég átti að komast upp til að hjálpa þeim. Það er bara svoleiðis,“ segir leikarinn og hásetinn Þröstur Leó Gunnarsson. Hann er einn þeirra þriggja sem björguðust þegar báturinn Jón Hákon sökk við Aðalvík á þriðjudagsmorgun.

Þetta segir Þröstur Leó í samtali við Morgunblaðið. Hann dró tvo skipsfélaga sína upp á kjöl skipsins, en fjórði félaginn, Magnús Kristján Björnsson, fórst. Hann var faðir skipstjórans, Björns Magnússonar.

Þröstur og mennirnir tveir telja sig hafa verið í um klukkustund á kili bátsins þegar þeim var komið til bjargar af áhöfn Mardísar frá Súðavík og skömmu síðar sökk Jón Hákon. Hvorki liggur fyrir hvers vegna báturinn sökk, né af hverju hvorki björgunarbátar né björgunarhringir flutu upp.

Stóð einn uppi á kili

Í samtali við Morgunblaðið segist Þröstur telja að það hafi tekið bátinn einungis um tíu sekúndur að fara á hvolf. Hefði skipið sokkið alveg undan þeim telur hann að kuldinn hefði farið með þá á stuttum tíma.

„Þetta gerðist á nokkrum sekúndum og sjórinn var allt í einu kominn upp í hné á mér. Ég æddi af stað og komst upp á síðuna bakborðsmegin,“ segir Þröstur Leó. Hann hafi staðið á lunningunni og horft niður á Guðmund Rúnar Ævarsson þar sem hann var að skálka mannop niður í lest. Björn hafði farið inn í brú til að reyna að keyra bátinn upp úr þessu.

„Ég hélt áfram hringinn um leið og báturinn valt og stóð að lokum aleinn uppi á kilinum, aðeins blautur upp í hné,“ segir Þröstur.

Rannsóknarnefnd sjóslysa heldur vestur í dag til að hefja skoðun sína á því hvers vegna Jón Hákon sökk.


Tengdar fréttir

Björgunarbúnaður gæti hafa brugðist

Rannsóknarnefnd sjóslysa og lögreglan á Vestfjörðum rannsaka hvort björgunarbúnaður um borð í Jóni Hákoni BA-60 hafi virkað sem skyldi þegar báturinn sökk. Einn skipverji lést þegar báturinn sökk úti fyrir Aðalvík í gærmorgun.

Nafn mannsins sem lést

Hann lét lífið þegar­ Jón Hákon BA-60 hvolfdi við Aðalvík í gær en þremur öðrum var bjargað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×