Menning

Sérstakir staðir sem breyta öllu

Magnús Guðmundsson skrifar
Akranesviti er einn þeirra staða þar sem Anna hyggur á tónleika í sumar.
Akranesviti er einn þeirra staða þar sem Anna hyggur á tónleika í sumar.
Anna Jónsdóttir sópran mun nú í sumar leggja land undir fót og halda tónleika víðs vegar um landið. Tónleikaferðina nefnir hún Uppi og niðri og þar í miðju og er hún farin í kjölfar útgáfu hljómdisksins VAR sem hefur að geyma íslensk þjóðlög, hljóðrituð í Akranesvita og í lýsistanki í Djúpavík.

Í tónleikaferðinni ætlar Anna að syngja þjóðlög án meðleiks á óvenjulegum stöðum í anda hljómdisksins. „Þar má nefna Klettshelli í Vestmannaeyjum, Kirkjuna í Dimmuborgum, verksmiðjuna á Hjalteyri, Stefánshelli í Borgarfirði, Grímsey, Vatnshelli á Snæfellsnesi, Akranesvita, Garðskagavita, Djúpavík og fleiri staði.

Það er yndislegt að geta flutt þessa fallegu tónlist í umhverfi sem er engu líkt. Að stíga út úr hefðbundnum tónleikasal og koma sér fyrir hjá áhorfendum. Við óvenjulegar aðstæður og með því að syngja án meðleiks skapast sérstakt andrúmsloft og náin tengsl við áheyrendur.

Mér finnst gott að segja svolítið frá lögunum, því ef það er saga á bak við þau er eins og bæði ég og áheyrendur verði fyrir sterkari áhrifum.

Sérstaða staðanna gefur líka upplifuninni meira vægi. Það er óneitanlega sérstakt að standa í yfirgefinni verksmiðju eða í helli sem er bara lýstur með kertaljósi og þannig fær maður öðruvísi tilfinningu fyrir þjóðararfinum og því sem var.“

Alls eru áætlaðir um fimmtán tónleikar og því um að gera að fylgjast vel með hvar Anna ber niður með þjóðlögin í sumar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×