Erlent

Fjölmargir smitaðir

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Skólastofur hafa verið sótthreinsaðar og börn látin ganga með grímur til að draga úr líkum á smiti.
Skólastofur hafa verið sótthreinsaðar og börn látin ganga með grímur til að draga úr líkum á smiti. vísir/EPA
Að minnsta kosti 122 hafa smitast af MERS-veirunni í Suður-Kóreu frá 20. maí, þegar sá fyrsti greindist. Hann var þá nýkominn frá Mið-Austurlöndum, þar sem veirunnar varð fyrst vart.

Nærri fjögur þúsund manns hafa verið settir í einangrun vegna þess að þeir hafa verið í samskiptum við fólk sem hefur smitast. Gripið hefur verið til margvíslegra ráðstafana, eins og að sótthreinsa skólastofur. Þá er algengt að sjá fólk með grímur fyrir vitum úti á götu.

MERS-veiran er náskyld SARS-veirunni og getur eins og hún valdið bráðri lungnabólgu með hita, öndunarerfiðleikum og jafnvel nýrnabilun.

MERS er skammstöfun sem stendur fyrir Middle East Respiratory Syndrome, en SARS stendur fyrir Severe Acute Respiratory Syndrome. Á íslensku hefur síðarnefnda veiran verið nefnd heilkenni bráðrar lungnabólgu, eða HABL.

Læknar segja veiruna ekki bráðsmitandi. Þvert á móti eigi hún erfitt með að berast á milli manna nema með nánum samskiptum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×