Erlent

Cameron segir stríði við Íran hafa verið forðað

Heimir Már Pétursson skrifar
Cameron forsætisráðherra Bretlands segir að án samnings við Íran um kjarnorkumál hefðu Vesturlönd staðið frami fyrir þeim hræðilega möguleika að fara í stríð við Íran. Ekki verði slegið af kröfum um að Íran láti af stuðningi sínum við ýmsa hryðjuverkahópa í miðausturlöndum.

Leiðtogar þeirra vestrænu ríkja sem stóðu að samkomulagi við Írani í síðustu viku um kjarnorkumál keppast nú við að afla samkomulaginu pólitísks stuðnings heimafyrir. Barack Obama forseti Bandaríkjanna sagði í sjónvarpsávarpi til þjóðar sinnar í gær að samkomulagið væri grundvöllur að friðsamlegra ástandi í miðausturlöndum og tryggði að Íranir gætu ekki framleitt kjarnavopn í framtíðinni.

David Cameron forsætisráðherra Bretlands tók undir þetta í dag.

„Ég tel að ef ekki hefðu náðst samningar hefðum við staðið frami fyrir Íran vopnað kjarnorkuvopnum. Það hefði kallað á hræðilegt val fyrir Vesturlönd um að koma í veg fyrir það, láta það gerast eða þá erfiðu ákvörðun að fara í hernaðaraðgerðir gegn Írak. Þetta er betri niðurstaða.“



Hægriöfl í Bandaríkjunum sem ráða miklu um það hvort samkomulagið verði staðfest í báðum deildum Bandaríkjaþings finna samkomulaginu allt til foráttu.

Ekki þarf að koma á óvart að það gera Ísraelsmenn líka sem líta á samkomulagið sem undanlátsemi við hryðjuverkaríki sem stefni að því að eyða Ísrael. En Kahmenei trúarleiðtogi Írana hét áframhaldandi stuðningi við hryðjuverkaöfl í ýmsum ríkjum miðausturlanda í fjöldamessu í Teheran í gær og gaf í skyn að samkomulagið sem veraldleg stjórn landsins hefur samþykkt yrði ef til vill ekki staðfest.

Benjamin Netanyahu forsætisráðherra Ísraels sagði í dag að ef menn hafi haldið að samkomulagið myndi leiða til breyttrar stefnu Írana hafi þeir fengið afgerandi svör um helgina í árásargjarnri og ögrandi ræðu frá Khamenei trúarleiðtoga landsins í gær.

„Íranir gera ekki einu sinni tilraun til að fela þá staðreynd að þeir munu nota hundruð millarða dollara sem þeir fá með þessum samningi (með afléttingu viðskiptabanns) til að víbúa hryðjuverkavél sína. Þeir segja jafnframt mjög skýrt að þeir muni halda áfram að berjast gegn Bandaríkjunum og bandamönnum þeirra sem og Ísrael,“ sagði Netanyahu.

Cameron segir hins vegar ástæðu til að gleðjast yfir samkomulaginu sem hafi nást vegna þess að samningamenn á báða bóga hafi einbeitt sér að kjarnorkumálunum einum en ekki öðrum þáttum varðandi Íran.

„En ættum ekki að vera barnaleg með glýju í augunum varðandi þau stjórnvöld sem við eigum í samningum við. Ég er það alls ekki sjálfur. Ég talaði við Rouhani í gær og gerði honum grein fyrir að við vildum sjá breytingar á nálgun Írana til mála eins varðandi Sýrland og Jemen og til hryðjuverka á svæðinu. Að við vildum sjá breytta hegðun hjá þeim.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×