Erlent

Sjötíu prósent Grikkja styðja samkomulag við lánardrottna

Atli Ísleifsson skrifar
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands.
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands. Vísir/AFP
Sjö af hverjum tíu Grikkjum styðja að Grikklandsstjórn semji um frekari neyðarlán við lánardrottna sína, jafnvel þó slíkt feli í sér harðar aðhaldsaðgerðir.

Þetta eru niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar Palmos Analysis fyrir dagblaðið Efimerida ton Syntakton og greint var frá í dag.

Könnunin sýnir að einungis 24 prósent Grikkja myndu kjósa að yfirgefa evrusamstarfið, í stað þess að ná samkomulagi við Evrópusambandið, Evrópska seðlabankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

73 prósent aðspurðra sögðust vilja vera áfram með evruna, þar á meðal 66 prósent stuðningsmanna stjórnarflokksins Syriza. Alls sagðist fimmtungur vilja taka upp grísku drökmuna á nýjan leik, en einungis 26 prósent stuðningsmanna Syriza sögðust vilja fara þá leið.

Könnunin sýndi jafnframt að stuðningur við stjórnarflokkinn Syriza væri enn mikill, þar sem 42,5 prósent sögðust munu kjósa hann ef gengið yrði til kosninga nú.

21,5 prósent sögðust styðja Nýtt lýðræði, átta prósent To Potami, 6,5 prósent Gullna dögun, sex prósent PASOK, fimm prósent KKE og þrjú prósent Sjálfstæða Grikki. Sjö prósent aðspurðra sögðust styðja aðra flokka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×