FH hefur kallað markvörðinn Kristján Pétur Þórarinsson til baka úr láni frá Víkingi Ólafsvík.
Með þessu eru FH-ingar að bregðast við rauða spjaldinu sem Róbert Örn Óskarsson fékk í 1-2 tapinu fyrir aserska liðinu Inter Bakú í gær.
Hinn 44 ára gamli Kristján Finnbogason kom inn á í stað Róberts og hann mun að öllum líkindum standa í marki FH í seinni leiknum í Bakú næsta fimmtudag. Kristjáni Pétri er ætlað að vera nafna sínum til halds og trausts.
Kristján Pétur, sem er fæddur árið 1995 og þar með 24 árum yngri en Kristján Finnbogason, lék einn leik með Víkingum í 1. deildinni og tvo í Borgunarbikarnum. Í öðrum leikjum hefur Spánverjinn Cristian Martinez Liberato varið mark Víkinga sem eru í 3. sæti 1. deildarinnar.
FH tekur á móti KR í uppgjöri toppliða Pepsi-deildarinnar áður en Hafnfirðingar halda til Aserbaísjan.
FH kallar markvörð til baka úr láni

Tengdar fréttir

Umfjöllun, viðtöl og myndir: FH - Inter Baku 1-2 | FH-ingar í erfiðri stöðu
FH er í erfiðri stöðu fyrir seinni leikinn gegn aserska liðinu Inter Bakú í 2. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar eftir 1-2 tap í fyrri leiknum í Kaplakrika í kvöld.

Athletic Bilbao handan við hornið hjá FH
Ef FH tekst að snúa einvígi sínu gegn Inter Baku við mætir liðið Athletic Bilbao í næstu umferð.

Heimir: Dómarinn með týpískan sænskan hroka
Heimir Guðjónsson var ósáttur með dómgæsluna í leik FH og Inter Bakú.