Erlent

Aðskilnaðarsinnar héldu þeir hefðu skotið niður úkraínska herflugvél

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Nýtt myndband sýnir aðskilnaðarsinna koma að braki vélarinnar.
Nýtt myndband sýnir aðskilnaðarsinna koma að braki vélarinnar. Vísir/AFP
Hópur aðskilnaðarsinna í Úkraínu kom að flaki flugvélar Malasyia Airlines fljótlega eftir að hún var skotin niður í lofthelgi Úkraínu fyrir tólf mánuðum síðan og fóru meðal annars í gegnum farangur látinna farþega. Þetta sést í nýbirtu myndbandi sem tekið var á slysstað.

Svo virðist sem mennirnir hafi talið að vélin væri úkraínsk herflugvél. Einn mannanna, sem talar blöndu af rússnesku og úkraínsku, heyrist spyrja hvar brakið úr Sukhoi vélinni sé en er þá svarað að þarna sé um að ræða farþegaflugvél.

298 létu lífið þegar flugvélin var skotin niður en hún var á leið frá Amsterdam í Hollandi til Kuala Lumpur í Malasíu. Flestir um borð voru hollenskir ríkisborgarar og hafa stjórnvöld þar í landi kallað eftir að alþjóðlegur dómstóll verði settur á fót til að rétta yfir þeim sem ábyrgir eru.

Það er ástralska fjölmiðlafyrirtækið News Corp sem birti myndbandið en samkvæmt fyrirtækinu var alþjóðlegu rannsóknarteymi skipað lögreglumönnum frá Ástralíu, Belgíu, Malasíu, Hollandi og Úkraínu afhent myndbandið til rannsóknar fyrr í vikunni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×