Lífið

Rúllar fótbrotinni brúður inn kirkjugólfið á gylltum hjólbörum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Erik Newman og Rakel Sara Jónasdóttir láta ekki fótbrot stöðva sig.
Erik Newman og Rakel Sara Jónasdóttir láta ekki fótbrot stöðva sig. mynd/erik
Hin tilvonandi brúður Rakel Sara Jónasdóttir, sem fótbrotnaði eftir að hafa hoppað úr átta metra hæð og lent á sérstakri hoppudýnu á Bíladögum á Akureyri, virðist gædd ótrúlegri spádómsgáfu.

Í kjölfar slyssins sagði hún í samtali við Vísi þann 24. júní síðastliðinn að hún ætlaði ekki að svekkja sig á fótbrotinu og setja heldur upp bjartsýnisgleraugun, þrátt fyrir að óðfluga styttist í brúðkaup hennar og unnustans Erik Newman.

„Mér verður kannski rúllað inn kirkjugólfið á hjólbörum,“ sagði Rakel glettin og nú, liðlega þremur vikum síðar, virðist spá hennar hafa ræst.

Sjá einnig: Tvífótbrotnaði á hoppudýnu þremur vikum fyrir brúðkaup

Erik hefur nefnilega skellt hjólbörum í hátíðarbúning; málað þær gylltar,  skipt um höldur og letrað á þær dagsetningu brúðkaupsins sem fram fer um helgina og fyrirhugað er að móðir brúðarinnar rúlli henni inn kirkjugólfið á laugardaginn kemur.

Nöfn þeirra beggja og dagsetningu brúðkaupsins hafa verið áletruð á Gullvagninn með semalíuskrauti.mynd/Erik
Erik er bjartsýnn eins og unnusta sín. „Við erum með tvö máltæki mikið ì notkun þessa dagana; „fall er faraheill" og þar sem èg er hálf enskur notum við mikið „break a leg," segir hann léttur í lund þegar Vísir náði tali af honum.

Hann kveðst svo sannarlega vera spenntur fyrir brúðkaupinu á laugardaginn – ekki síst fyrir því hvort spúsa hans muni þurfa að reiða sig á tvo jafnflóta eða hinn umrædda Gullvagn – en hvort þetta sé Gullvagninn sem Björgvin Halldórsson og félagar sungu um á sínum tíma skal ósagt látið.

„Við vitum ekki fyrr en í hádeginu á föstudaginn hvort að hún verði komin í göngugifs og geti þá skrölt sjálf eða hvort að hún verði ennþá í spelku og þurfi aðstoð,“ segir Erik. „En Gullvagninn er alla vega klár.“

Erik gerir ekki ráð fyrir öðru en að hjólbörurnar fái að vinna fyrir kaupinu sínu á laugardaginn og verði nýttar af miklum móð, jafnt í veislunni sem og sjálfri brúðarmyndatökunni. 

„Svo rúllum við henni örugglega á dansgólfið líka,“ segir Erik léttur. 

Hann segir undirbúning fyrir brúðkaupið langt á veg kominn og var kokkurinn að fara yfir matarmál veislunnar þegar blaðamaður náði tali af honum. 

Athöfnin sjálf fer fram í Grundarkirkju í Eyjafirði og áfanganum verður fagnað í Hlíðarbæ  - í um 25 mínútna fjarlægð. Þrátt fyrir að vera mikið hreystimenni efast Erik um að hann muni ýta sinn heittelskuðu á Gullvagninum þarna á milli heldur verður bíll fenginn til ferjunarinnar. 

Fall er fararheill!mynd/erik

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×