Erlent

Aðstoðarfjármálaráðherra Grikklands segir af sér

Atli Ísleifsson skrifar
Aðstoðarfjármálaráðherrann Nadia Valavani hefur sagt af sér embætti í mótmælaskyni.
Aðstoðarfjármálaráðherrann Nadia Valavani hefur sagt af sér embætti í mótmælaskyni. Vísir/AFP
Nadia Valavani, aðstoðarfjármálaráðherra Grikklands, hefur sagt af sér embætti í mótmælaskyni vegna samkomulagsins sem Alexis Tsipras, forsætisráðherra landsins, undirritaði við lánardrottna á mánudag.

Tsipras þarf að tryggja að ekki fleiri en fjörutíu þingmenn innan síns flokks greiði atkvæði gegn fjórum frumvörpum í kvöld, en þau eru forsenda þess að frekari neyðarlán berist.

Til harðra orðaskipta hefur komið á gríska þinginu í dag þar sem verið er að ræða samkomulagið. Þingmenn munu greiða atkvæði um lagafrumvörpin í kvöld.

Frammíköll að Varoufakis

Frammíköll voru gerð að Yanis Varoufakis, fyrrverandi fjármálaráðherra, þegar hann líkti samkomulaginu við Versalasamninginn sem gerður var í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar árið 1919. Með samningnum játuðu Þjóðverjar á sig fulla ábyrgð á að hafa komið af stað stríði og tóku á sig ábyrgð af þeim kostnaði sem stríðið hafði valdið.

Tsipras vinnur nú hörðum höndum að því að tryggja stuðning við fjögur lagafrumvörp sem miða meðal annars að því að hækka eftirlaunaaldur, hækka virðisaukaskatt og að tryggja sjálfstæði hagstofu landsins.

Hefur ekki trú á samkomulaginu

Tsipras hefur sjálfur sagt að hann hafi ekki trú á samkomulaginu sem náðist á mánudagsmorguninn í Brussel og hafa fjölmargir stjórnarþingmenn sagt að þeir ætli ekki að greiða atkvæði með frumvörpunum. Tsipras þarf því mögulega að treysta á stuðning stjórnarandstöðuþingmanna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×