Enski boltinn

Samkomulag í höfn hjá De Gea og Real Madrid?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Enn er óvíst hvort að Manchester United samþykki að selja markvörðinn David De Gea til Real Madrid þó svo að hann eigi aðeins eitt ár eftir af samningi sínum við enska félagið.

Samkvæmt frétt Marca hefur þó Real Madrid tryggt sér þjónustu De Gea frá og með næsta tímabili hið minnsta. Fari svo að De Gea spili áfram í Englandi mun hann þá koma frítt til Spánar næsta sumar og fá þá fimm milljóna evru greiðslu frá spænska stórveldinu við komuna.

Marca fullyrðir að sú upphæð jafngildi árslaunum hans hjá Real Madrid þegar hann kemur loks til félagsins. Upphæðin verði greidd út sem bónus við undirskrift nýja samningsins.

Forráðamenn United virtust viljugir að selja De Gea gegn því að fá varnarmanninn Sergio Ramos í staðinn. Því hafa forráðamenn Real Madrid hafnað og segja hann ekki til sölu, þó svo að leikmaðurinn sjálfur er sagður viljugur að fara.

Þá munu meiðsli Hugo Lloris, markvarðar Tottenham, einnig hafa sett strik í reikninginn en hann var efstur á óskalista Louis van Gaal, stjóra United, sem eftirmaður De Gea.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×