Erlent

Móðir sem sýndi dreng sínum „óskiljanlega grimmd“ lést í fangelsi

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Daniel Pelka var fjögurra ára þegar hann dó eftir ógeðfellda meðferð þeirra sem áttu að sjá um hann.
Daniel Pelka var fjögurra ára þegar hann dó eftir ógeðfellda meðferð þeirra sem áttu að sjá um hann.
Magdalena Luczak, móðir drengsins Daniel Pelka sem lést fjögurra ára gamall eftir að hafa verið sveltur og barinn til óbóta, fannst látin í fangaklefa sínum í dag. SKY greinir frá.

Luczak var dæmd til þrjátíu ára fangelsisvistar fyrir morðið á syni sínum og hafði aðeins afplánað tvö þeirra. Stjúpfaðir drengsins, Mariusz Krezolek, var einnig dæmdur fyrir morðið. Málið vakti mikla athygli sumarið 2013 enda hafði parið beitt Daniel „óskiljanlegri grimmd“ eins og segir í dómskjölum. 

Luczak var í fangelsinu Foston Hall í Derbyshire í Englandi. Hún var úrskurðuð látin í klefanum. Talsmaður dómsmálaráðuneytisins í Englandi sagði að rannsókn myndi fara fram á dauða hennar rétt eins og tilfellið er með alla aðra sem láta lífið í varðhaldi.

Vísir var einn þeirra miðla sem fjallaði um málið á sínum tíma. Þá umfjöllun má lesa hér.

Móðir Daniels lést í fangelsi í dag. Stjúpfaðir hans var einnig dæmdur fyrir morðið á stjúpsyni sínum.
Daniel var einungis um tíu kíló þegar hann lést en móðir hans og stjúpfaðir höfðu svelt hann svo mánuðum skipti. Þau lömdu barnið en skólayfirvöld aðhöfðust ekkert þrátt fyrir að hann kæmi með glóðurauga í skólann eða með brotið bein.

Eitt vitnanna í morðmáli Daniels var ónafngreint systkini hans sem bjó á sama heimili. Systkinið lýsti því hvernig Daniel hefði verið neitað um mat þegar hann bað um hann og að hann hafi ekki fengið að fara á klósettið. Barnið sagði einnig að Daniel hefði verið settur í ísbað og höfði hans slengt í baðkarið. Systkinið unga lýsti því einnig hvernig það hefði einu sinni ekki getað vakið bróður sinn. „Ég reyndi að vekja hann en ég gerði það ekki, ég gat það ekki. Ég hlustaði á hjarta hans en það gerði ekkert. Það gat ekki slegið. Ég öskraði og öskraði: „Hvað er að?“ en þau komu ekki að sjá.“

Daniel lést að lokum eftir alvarlega höfuðáverka.


Tengdar fréttir

Lífstíðarfangelsi fyrir að valda dauða sonar síns

Móðir og stjúpfaðir Daniels Pelka, fjögurra ára bresks drengs sem lést af völdum höfuðhöggs á síðasta ári eftir langvarandi ofbeldi, voru í dag dæmd til lífstíðarfangelsisvistar. Þau eiga rétt á reynslulausn eftir 30 ár hið minnsta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×