Erlent

Bjargaðist eftir langa göngu frá slysstaðnum

Atli Ísleifsson skrifar
David Veatch, faðir Autumn, ræddi við fjölmiðla fyrir utan sjúkrahúsið í bænum Brewster.
David Veatch, faðir Autumn, ræddi við fjölmiðla fyrir utan sjúkrahúsið í bænum Brewster. Vísir/AP
Sextán ára bandarískri stúlku var bjargað eftir að hún gekk í tvo daga frá staðnum þar sem lítil flugvél sem hún var farþegi í, hrapaði í fjalllendi í norðvesturhluta Bandaríkjanna.

Stúlkan, Autumn Veatch, var í vélinni ásamt stjúpömmu og stjúpafa sínum þegar vélin brotlenti í North Cascades þjóðgarðinum í Washington-ríki á laugardaginn.

Stúlkan er ekki í lífshættu, en dvelur nú á sjúkrahúsi.

Í frétt BBC segir að ekki sé vitað hvað hafi komið fyrir stjúpömmu og afa hennar, en Autumn á að hafa reynt að bjarga þeim úr brakinu.

David Veatch, faðir Autumn, sagði dóttur sína úrvinda en annars í góðu ásigkomulagi þegar hann ræddi við blaðamenn fyrir utan sjúkrahúsið í bænum Brewster. Sagði hann Autumn hafa grínast við sig um alla þá sjónvarpsþætti sem þau höfðu horft á og fjalla um að komast lífs af í náttúrunni.

Autumn yfirgaf slysstaðinn daginn eftir slysið og gekk með fljótinu, á slóða og að nálægum vegi þar sem vegfarandi ók henni til bæjarins Mazama þar sem henni var komið undir læknishendur.

Brak vélarinnar hefur enn ekki fundist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×