Erlent

Obama: Samkomulagið kemur í veg fyrir frekari útbreiðslu kjarnavopna

Atli Ísleifsson skrifar
Bandaríkjaforseti greindi frá því að hann muni beita neitunarvaldi gegn öllum þeim lögum í Bandaríkjaþingi sem miða að því að hindra framgang samkomulagsins.
Bandaríkjaforseti greindi frá því að hann muni beita neitunarvaldi gegn öllum þeim lögum í Bandaríkjaþingi sem miða að því að hindra framgang samkomulagsins. Vísir/AFP
Nýtt samkomulag um kjarnorkuáætlun Írana er trygging fyrir að kjarnavopn breiðist ekki enn frekar út. Þetta sagði Barack Obama Bandaríkjaforseti þegar hann brást við fréttum af samkomulaginu fyrr í dag.

„Í dag höfum við stöðvað útbreiðslu kjarnavopna í heimshlutanum. Þetta er samningur sem tryggir öruggari og vænlegri heim,“ sagði forsetinn.

Samkvæmt samkomulaginu er komið í veg fyrir að Íranir geti þróað kjarnavopn, en þeir hafa ætíð haldið því fram að kjarnorkuáætlun landsins þjóni friðsamlegum tilgangi. Í skiptum verður viðskiptaþvingunum vesturveldanna á hendur Íran aflétt.

Brot myndi kalla á hörð viðbrögð

Tilkynnt var um samkomulag um takmarkanir á kjarnorkuáætlun Írana fyrr í dag, en samningaviðræður hafa staðið undanfarin ár á milli Írans og sex heimsvelda – Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands, Kína, Rússlands og Þýskalands.

Obama sagði að ef írönsk stjórnvöld færu ekki að ákvæðum samningsins myndi það kalla á hörð viðbrögð og viðskiptaþvingunum yrði aftur komið á.

Tryggja að farið sé að ákvæðum samningsins

Forsetinn lagði áherslu á að sérfræðingar muni sjá til þess að farið sé í smáatriðum eftir ákvæðum samningsins. Verður þeim meðal annars veittur aðgangur að kjarnorkustöðvum Írana.

Obama greindi einnig frá því að hann muni beita neitunarvaldi sínu gegn öllum þeim lögum í Bandaríkjaþingi sem miða að því að hindra framgang samkomulagsins, en margir þingmenn hafa lýst sig andsnúna því.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×