Erlent

Samið við Írana: Sögulegt samkomulag og opnað á „nýjan kafla vonar“

Atli Ísleifsson skrifar
Að loknum samningafundi í Vínarborg.
Að loknum samningafundi í Vínarborg. Vísir/AFP
Heimsveldin hafa náð samkomulagi um takmarkanir á kjarnorkuáætlun Írana, en samningaviðræður hafa staðið undanfarin ár á milli Írans og sex heimsvelda – Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands, Kína, Rússlands og Þýskalands.

Utanríkisráðherra Írans, Mohammad Javad Zarif, segir samkomulagið „sögulegt“ og að með því sé opnaður nýr kafli vonar.

Samkomulagið felur í sér að fulltrúum Sameinuðu þjóðanna verði heimilaður víðtækur aðgangur að kjarnorkustöðvum Írana, í skiptum fyrir að viðskiptaþvinganir á hendur Íran verður aflétt.

Samningaviðræður Írana og sexveldanna hafa staðið síðan 2006.

Viðskiptaþvingunum aflétt

Íranskir fjölmiðlar hafa greint frá því að samkomulagið feli í sér að vopnainnflutningsbann verði afnumið en nýjum hindrunum komið á. Þannig munu Íranir geta flutt vopn inn og út úr landinu, þar sem afstaða er tekin til þess í hverju tilviki fyrir sig.

Viðskiptaþvinganir Evrópusambandsins og Bandaríkjanna verður aflétt þegar samningurinn tekur gildi. Írönum verður heimilað að auðga áfram úran og þróa  kjarnorku í friðsamlegum tilgangi. Þannig eigi Íranir ekki að getað þróað kjarnorkuvopn.

Tákn um von

Federica Mogherini, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, segir samkomulagið vera „tákn um von fyrir heiminn allan“. „Þetta er ákörðun sem getur opnað leið að nýjum kafla í alþjóðasamskiptum.“

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, hefur fordæmt samkomulagið. „Af því sem ég hef heyrt get ég upplýst um að þetta samkomulag eru söguleg mistök í mannkynssögunni,“ segir Netanyahu. „Það er ekkert í því sem kemur í veg fyrir að Íranir geti búið til kjarnavopn heldur þvert á móti er þar að finna mikla eftirgjöf.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×