Erlent

Handtekinn fyrir að hlaða símann í lest

Birgir Olgeirsson skrifar
Það er bannað að hlaða símann sinn í lestum í Lundúnum.
Það er bannað að hlaða símann sinn í lestum í Lundúnum. Vísir/Getty
Karlmaður var handtekinn fyrir að hlaða símann sinn um borð í lest í London. Maðurinn sakar bresk samgönguyfirvöld um öfgafull viðbrögð.

Hann var handjárnaður og færður á lögreglustöð fyrir að stela rafmagni úr lestinni, en hann hafði stungið farsíma sínum í samband við innstungu sem ætluð er ræstitæknum sem þrífa lestarvagnana. Samkvæmt breskum lögum frá árinu 1968 er bannað að taka rafmagn ófrjálsri hendi en hámarksrefsing fyrir slíkan verknað er fimm ára fangelsi.

Um er að ræða 45 ára gamlan listamann sem heitir Robin Lee. Hann var á leið með lest frá Hakney Wick til Camden Road síðastliðið föstudagskvöld þegar hann ákvað að hlaða símann sinn. Skömmu síðar er hann sakaður um að hafa stolið rafmagni og taka fjórir lögreglumenn á móti honum við Camden Road. Við komuna á lögreglustöðina var fallið frá þessum ásökunum en hann þess í stað sakaður um óásættanlega hegðun.

Mál hans er nú hjá embætti saksóknara þar sem tekin verður ákvörðun um hvort farið verður lengra með mál hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×