Erlent

Sýknaðar af ákæru um að hafa klæðst of stuttum pilsum

Atli Ísleifsson skrifar
Fjölmargir mótmæltu handtöku kvennanna.
Fjölmargir mótmæltu handtöku kvennanna. Vísir/AFP
Tvær marokkóskar konur hafa verið sýknaðar af ákærum um ósiðlegt athæfi eftir að þær voru dregnar fyrir rétt fyrir að klæðast „of stuttum pilsum“.

Í frétt BBC segir að konurnar hafi verið handteknar þann 16. júní á markaðstorgi í bænum Inezgane, nærri Agadir, eftir að þær urðu fyrir aðkasti sölumanna.

Málið hefur vakið mikla athygli í Marokkó og hafa þúsundir manna skrifað undir yfirlýsingu sem kveður á um að handtakan hafi verið bein árás á persónufrelsið.

Mörg hundruð lögfræðinga buðust til að verja konurnar. Kvenréttindabaráttukonan Fouzia Assouli sagði í samtali við AFP að sýknan sýndi fram á að það væri ekki glæpur að klæðast pilsi.

Lögmaður kvennanna, Houcine Bekkar Sbai, segir í samtali við marokkóska fjölmiðla að næsta skref í málinu sé að kæra það fólk sem veittist að konunum á markaðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×