Erlent

Stórborgir á kafi í Kína

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Björgunarsveitir hafa þurft að reiða sig á hraðbáta til að ná til innlyksa fólks.
Björgunarsveitir hafa þurft að reiða sig á hraðbáta til að ná til innlyksa fólks. Vísir/epa
Um milljón manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín í Kína en fellibylurinn Chan-Hom stefnir nú óðfluga á landið.

Íbúar borgarinnar Shangyu í austurhluta landsins hafa orðið einna verst fyrir barðinu á storminum en heimkynni þeirra eru nú svo gott sem algjörlega á floti.

Myndband frá borginni sýnir hvernig björgunarsveitir hafa þurft að nýta sér hraðbáta til að komast til íbúa Shangyu sem margir eru innilokaðir á heimilum sínum.

Í myndbandinu hér að neðan sést vatnsmagnið á götum borgarinnar glögglega en bílar eru á bólakafi.

Íbúar Shangyu eru um 800 þúsund talsins en er borgin er sögufræg fyrir að hafa getið af sér marga fræði- og embættismenn í gegnum aldirnar.

Vindhraði Chan-Hom hefur náð allt að 173 kílómetrum á klukkustund, eða um 48 metrum á sekúndu. Talið er að stormurinn sé sá öflugasti í Zhejiang-héraði frá árinu 1949.

Mikil flóð og aurskriður hafa fylgt í kjölfar veðurofsans sem nú stefnir norður. Lestar- og flugsamgöngur liggja niðri en ekki hafa borist fréttir af manntjóni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×