Enski boltinn

United og Bayern komast að samkomulagi um kaupverð

Schweinsteiger fylgist hér með kærustu sinni, Ana Ivanovic, spila á Wimbledon mótinu í tennis fyrr í vikunni.
Schweinsteiger fylgist hér með kærustu sinni, Ana Ivanovic, spila á Wimbledon mótinu í tennis fyrr í vikunni. vísir/getty
Stórveldin FC Bayern og Manchester United hafa komist að samkomulagi um kaupverð á hinum 30 ára gamla Bastian Schweinsteiger, leikmanni þeirra fyrrnefndu. Þetta staðfestir Karl-Heinz Rummenigge, stjórnarformaður þýska liðsins.

Schweinsteiger á eitt ár eftir af samningi sínum við FC Bayern en hann lék undir stjórn Louis van Gaal hjá félaginu um tíma. Talið er að gott samband þeirra á milli hafi ráðið miklu um að Schweinsteiger ákvað að slá til og semja við Manchester United.

Kaupverðið hefur ekki verið staðfest en talið er að FC Bayern hafi viljað fá 15 milljónir punda fyrir leikmanninn eða rúma 3 milljarða íslenskra króna.

"Bastian vildi nýja áskorun á síðari hluta ferilsins. Hann bað um að við yrðum við hans ósk," segir Rummenigge en Schweinsteiger hefur leikið með Bayern allan sinn atvinnumannaferil.

"Kollegar mínir frá Manchester hafa verið í sambandi og við höfum náð samkomulagi. Það er eftirsjá í Bastian því hann hefur mikla þýðingu fyrir félagið. Hann hefur afrekað mikið," segir Rummenigge.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×