Conor McGregor hefur skotist leifturhratt upp á stjörnuhimininn í MMA. Frá því hann kláraði Marcus Brimage á 67 sekúndum í sínum fyrsta UFC bardaga hefur hann verið á allra vörum. Nú, rúmum tveimur árum síðar, er hann að fara að berjast um fjaðurvigtarbelti UFC.
Upphaflega átti McGregor að mæta fjaðurvigtarmeistaranum Jose Aldo en Aldo þurfti að draga sig úr keppni vegna rifbeinsmeiðsla fyrir. Inn kom Chad Mendes með skömmum fyrirvara og munu þeir berjast um svo kallaðan bráðabirgðartitil UFC (e. interim title). Sigurvegarinn mun svo mæta Aldo þar sem óumdeilanlegur fjaðurvigtarmeistari verður krýndur.
Conor McGregor talar í fyrirsögnum og setur hann mikla pressu á sjálfan sig með stórum yfirlýsingum. Hingað til hefur hann staðið við allar sínar yfirlýsingar en á morgun verður hans stærsta prófraun.
Þeir sem þekkja til McGregor segja að pressan hafi ekkert nema jákvæð áhrif á hann. Því meiri pressa sem hvílir á honum, því betur virðist hann standa sig.
Gegn Mendes hefur hann ekki sparað stóru orðin og sagt Mendes vera nýliða sem muni ekki geta enst út 1. lotuna á morgun. Aðrir búast við hnífjöfnum og spennandi bardaga.
Nokkrir hlutir til að hafa í huga:
- 15 af 17 sigrum hans hafa komið eftir rothögg
- Aldrei verið tekinn niður í UFC
- Hefur aldrei mætt jafn sterkum glímumanni og Mendes
- Í fimm UFC bardögum sínum hefur McGregor verið samtals stjórnað í aðeins 25 sekúndur
Hver er styrkleiki Chad Mendes og hver er hans leið til sigurs? Lestu um það á vef MMA Frétta hér.