Erlent

Fjögur ár liðin frá árásunum í Noregi: Sár sem aldrei munu gróa

Atli Ísleifsson skrifar
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs.
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs. Vísir/AFP
Norðmenn minnast þess í dag að fjögur ár eru liðin frá hryðjuverkunum í Ósló og Útey þar sem 77 manns biðu bana. Dagskráin hófst á mínútu þögn í stjórnarráðshverfinu í Ósló.

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, tekur virkan þátt í dagskránni og sagði 22. júlí hafi opnað sár sem aldrei munu gróa. „Einungis sá sem hefur misst son eða dóttur veit hvað það er hræðilegt.“

Solberg sagði það hafa hreyft mikið við sér að sjá andlit fórnarlambanna uppi á vegg á nýrri sýningu sem tileinkuð er fórnarlömbum árásanna. „Andlit fórnarlambanna, að sjá hvað þau voru ung. Það hafði öflugustu hughrifin.“

Forsætisráðherrann nýtti einnig tækifærið til að ræða um uppgang öfgastefnu í Noregi. Sagði hún fjölda ungmenna hneigjast að öfgastefnu. „Sumir ferðast til útlanda til að taka þátt í stríði. Ef við ætlum að hafa betur gegn öfgastefnum verðum við að virkja alla krafta.“

Sérstök minnisguðsþjónusta fer svo fram í Dómkirkjunni í Ósló þar sem áhersla verður á friðinn, vonina og framtíðina.

Ungir jafnaðarmenn standa fyrir minningarathöfn í kvöld til að minnast fórnarlamba hryðjuverkaárásanna. Athöfnin hefst klukkan 20 og fer fram við Minningarlundinn í Vatnsmýri og eru allir velkomnir. Sendiherra Noregs mun taka til máls.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×