Viðskipti innlent

Standard&Poor's hækkar lánshæfismat bankanna

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Höfuðstöðvar Arion banka.
Höfuðstöðvar Arion banka. vísir/pjetur
Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið Standard & Poor´s hefur hækkað lánshæfismat Arion banka, Landsbankans og Íslandsbanka. Ákvarðanirnar koma í kjölfar kynningar áætlunar um afnám gjaldeyrishafta. Nýverið hækkaði S&P lánshæfismat íslenska ríkisins. Þetta kemur fram í tilkynningum frá bönkunum.

Arion banki hækkar úr BB+ í BBB- með stöðugum horfum. Landsbankinn fer úr BB+/B í BBB-/A-3 og Íslandsbanki í BBB-/A-3. 

„Það er mikilvægt fyrir okkur og okkar viðskiptavini að bankinn skuli vera kominn í fjárfestingarflokk. Bankinn hefur haft góðan aðgang að erlendri fjármögnun eins og 300 milljóna evra og 500 milljóna norskra króna skuldabréfaútgáfur bankans fyrr á þessu ári bera vott um,“ segir Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri.

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, segir: „Nýtt mat Standard & Poor’s er ánægjuleg tíðindi og í takt við væntingar, m.a. í kjölfar fréttar um bætta lánshæfiseinkunn ríkisins. Matið sýnir að staða bankans er sterk og að hann sé á réttri leið. Það að Landsbankinn sé nú kominn upp í fjárfestingarflokk eykur traust til bankans á mörkuðum og styður við fjármögnun hans í nánustu framtíð, bæði á innlendum og erlendum mörkuðum.“

„Þessi niðurstaða er í takt við væntingar okkar í ljósi hækkunar á lánshæfismati íslenska ríkisins. Það er ánægjulegt að fá viðurkenningu á þeim árangri sem hefur náðst, bæði í íslensku efnahagslífi sem og í endurskipulagningu lánasafns bankans. Lánshæfismat í fjárfestingarflokk frá Fitch og nú Standard & Poor‘s mun hafa jákvæð áhrif á aðgengi okkar að erlendu fjármagni og gera okkur kleift þjónusta viðskiptavini okkar enn betur og uppfylla framtíðarsýn bankans um að vera númer 1 í þjónustu,“ segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×