Erlent

Eldri borgararnir brjóta meira af sér en unglingarnir

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Mörg brotanna eru rakin til einsemdar ellilífeyrisþeganna.
Mörg brotanna eru rakin til einsemdar ellilífeyrisþeganna. vísir/getty
Japanskir eldri borgarar, þeir sem hafa náð 65 ára aldri, brutu meira af sér en ungt fólk á fyrri hluta þessa árs.

Löggæsluyfirvöld í Japan sögðu í tilkynningu til þarlendra fjölmiðla að oftar hefði þurft að kalla út lögregluna vegna brota ellilífeyrisþega en vegna afbrota unglinga, alls 23.656 sinnum samanborið við 19.670 útköll vegna fólks á aldrinum 14-19 ára.

Þetta er í fyrsta skipti síðan 1989 sem eldri borgarar brjóta meira af sér en ungt fólk ef marka má frétt The Independent um málið.

Afbrotatíðni ellilífeyrisþega tvöfaldaðist á árunum 2003 til 2013 og voru brot þeirra sem hafa náð 65 ára aldri um 16 prósent allra afbrota í Japan árið 2011. Það eru um sexfalt fleiri brot en fyrir tuttugu árum.

Flest útköll vegna eldri borgara eru vegna smávægilegra þjófnaða í verslunum og þá hafa morðum af þeirra völdum fjölgað mikið. Ofbeldismál ellilífeyrisþega voru þannig um 50-falt fleiri árið 2011 en 1992.

Aukningin er fyrst og fremst rakin til tveggja þátta; annars vegar bágra kjara eldri borgara í Japan og hins vegar vegna gífurlegar fjölgunar í þeirra röðum. Fjórðungur allra landsmanna hefur náð 65 ára aldri og eru Japanir að verða sífellt langlífari. Það, ásamt lækkandi fæðingartíðni, er talið verða til þess að hlutdeild eldri borgara í glæpum landsins muni halda áfram að aukast á komandi áratugum.

Nú þegar hefur þessi þróun sett svip sinn á fangelsi landsins en einn af hverjum fimm föngum í japönskum fangelsum er eldri en sextugur.

Japanskir afbrotafræðingar telja að hluta afbrotanna megi rekja til einsemdar og einangrunar japanskra eldri borgara og sagði prófessorinn Koichi Hamai í samtali við Kydo News að: „Í fangelsum geta glæpamenn fengið félagsskap, mat og góða umönnun en þeir eiga oft ekki fjölskyldu og þá skortir oft fjárhagslegan stuðning.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×