Erlent

Sendiráð opnuð í Washington og Havana

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Starfsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins bætir við kúbanska fánanum milli fána Króatíu og Kýpur í anddyri ráðuneytisbyggingarinnar.
Starfsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins bætir við kúbanska fánanum milli fána Króatíu og Kýpur í anddyri ráðuneytisbyggingarinnar. Vísir/AFP
Eftir rúmlega hálfrar aldar fjandskap hafa Bandaríkin og Kúba endurnýjað stjórnmálasamband sitt og opnuðu í dag sendiráð í höfuðborgunum Havana og Washington. Dagurinn í dag markar því mikil tímamót í samskiptum landanna, sem hafa verið afar stirð, allt frá árinu 1961.

Kúberski fáninn verður dreginn að húni við sendiráð Kúbu í Washington nú eftir hádegi og viðstaddur verður Bruno Rodrigues, utanríkisráðherra Kúbu. Þá hefur um fimm hundruð gestum verið boðið til veislu í nýja sendiráðinu. Bandaríski fáninn verður dreginn að húni í Havana í ágúst, þegar John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna heimsækir borgina. 

Barack Obama Bandaríkjaforseti og Raul Castro, forseti Kúbu, hittust á sögulegum fundi í Panama í apríl síðastliðnum með það fyrir augum að bæta stjórnmálasamband ríkjanna tveggja. Í desember á síðasta ári hafði verið tilkynnt að unnið skyldi að bættum samskiptum, en samkomulagið var ávöxtur átján mánaða leynilegra viðræðna sem fóru að stórum hluta fram í Kanada.

Þjóðirnar tvær hafa frá árinu 1977 haldið úti nokkurs konar diplómatastarfsemi í höfuðborgum hvors annars, sem nýtur lagalegrar verndunar Svisslendinga. Ekki hefur hinsvegar verið um eiginleg sendiráð að ræða.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×