Erlent

Skaut par og sex börn til bana í heimahúsi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
David Conley.
David Conley.
Átta manna fjölskyldu var haldið gegn vilja sínum og síðan skotin til bana í húsi í Houston í Texas í Bandaríkjunum í dag. Morðinginn á glæpaferil að baki en hann hafði áður verið í sambandi með móðurinni. AP greinir frá.

David Conley, 48 ára Bandaríkjamaður, hefur verið ákærður fyrir morðin átta. Hann gæti átt yfir höfði sér dauðarefsingu. Honum er haldið í fangelsi í Houston. Fimmtugur faðir og fertug móðir eru dáin og sömuleiðis sex börn á aldrinum sex til þrettán ára. Elsti drengurinn er talinn vera sonur Conley og móðurinnar.

Fulltrúi lögreglu segir ekki hægt að skilja hvað hafi orðið til þess að Conley skaut átta saklausar manneskjur til bana. Talið er að um ósætti hafi verið að ræða milli hans og barnsmóðurinnar.

Conley hafði tilkynnt lögreglu í gær að skipt hefði verið um lása á heimilinu eftir að hann flutti út. Í vitnisburði Conley kemur fram að hann hafi farið inn um ólæstan glugga.

Langur sakaferill

Lögregla var svo kölluð út að húsinu í dag en enginn svaraði þegar barið var að dyrum. Lögreglumenn sáu karlmann á gólfinu með skotsár og heyrðu í kjölfarið byssuskot innan úr húsinu. Í hönd fór skotbardagi milli Conley og lögreglu sem lauk með því að Conley gaf sig fram.

Conley mun eiga sakaferil að baki sem nær í það minnsta aftur til 1988. Hann komst síðast í kast við lögin fyrir mánuði þegar hann réðst á aðila í fjölskyldu sinni. Um er að ræða konu en ekki liggur ljóst fyrir hvort um er að ræða barnsmóður Conley, sem hann skaut í dag, eða aðra konu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×